Our Blog

0

Fjölís hefur um langt skeið verið í samningaviðræðum við ráðuneyti mennta- og menningarmála vegna endurnýjunar og endurmats á samningi um afritun höfundaréttarvarins efnis, þ.m.t. í háskólum landsins.  Talsvert er afritað með stafrænum hætti af ýmis konar ítarefni fyrir háskólanemendur og því dreift með rafrænum hætti. Árið 2008 gerði Fjölís samning f.h. íslenskra rétthafa um greiðslur til höfunda fyrir slíka afritun. 2012 hafði Fjölís svo aflað tilskilinna umboða frá erlendum rétthafasamtökum til að semja fyrir þeirra hönd um greiðslur fyrir stafræna afritun og rafræna dreifingu.

Könnun sem gerð var árið 2014 leiddi í ljós að forsendubrestur hafði orðið vegna samninganna þar sem margfalt meira er afritað en forsendur samninganna gerðu ráð fyrir, nemendum hafði þá einnig fjölgað talsvert án þess að það væri bætt auk þess sem mikið er afritað af erlendu efni án heimilda.

Því miður hafa viðræður við ráðuneytið dregist á langinn af ýmsum ástæðum. Síðla árs 2015 virtist sem samningur næðist og höfðu íslenskir háskólar stólað á að samningurinn yrði yfirtekinn og heimildir þeirra til afritunar námsefnis tryggðar. Það náðist hins vegar ekki af ástæðum sem hvorki verða raktar til háskólanna eða Fjölíss.

Nú þegar talsvert er liðið á árið 2016 hafa samningar enn ekki verið undirritaðir og óljóst hvort af því verður. Málið virðist nú stranda inni í fjármálaráðuneytinu þar sem túlka þarf lög um opinber fjármál sem tóku gildi um síðustu áramót.

Eins og áður segir hefur Fjölís gert samninga við erlend rétthafasamtök um að gæta þeirra hagsmuna hérlendis og innheimta fyrir þau gjöld fyrir höfundarétt vegna afritunar. Þau hafa fram til þessa haldið að sér höndum að beiðni Fjölíss þar sem samningaviðræður séu enn yfirstandandi. Við það verður hins vegar ekki unað mikið lengur og ber Fjölís að leiðbeina þeim um lagaleg úrræði svo þau geti gætt réttar síns hérlendis.

Fjölís hefur því sent mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra beiðni um að hraða því sem út af stendur svo unnt verði að ljúka samningum án tafar. Að öðrum kosti sé félaginu sá kostur einn búinn að grípa til aðgerða vegna ólögmætrar notkunar á höfundaréttarvörðu efni í íslensku skólakerfi.

Comments ( 0 )

    Leave A Comment

    Your email address will not be published. Required fields are marked *