September 2013

Nú þegar enn einn skólaveturinn hefst fjölgar fyrirspurnum til Fjölíss um það hvað kennarar og leiðbeinendur mega ljósrita og skanna undir leyfissamningum sem gerðir hafa verði við félagið.

Hvaða efni er varið höfundarétti?

Til að gera langa sögu stutta þá er rétt að rifja upp að allt samið mál í ræðu og riti auk tónsmíða, ljósmynda, taflna og grafa er varið með höfundarétti. Afritun slíks efnis í starfi menntastofnana er óheimilt nema með leyfissamningi við Fjölís.  Gildir það jafnt um hefðbundna ljósritun, skönnun prentaðra verka og útprentun af netinu og einnig rafræna vistun og dreifingu.

Hlutverk Fjölís

Fjölís er félag sem stofnað er af höfundaréttarsamtökum á Íslandi. Félagið er milliliður þeirra sem afrita höfundaréttarvarið efni og rétthafa efnisins. Félagið innheimtir sanngjarna þóknun fyrir afnot af höfundaréttarvörðu efni og er tekjum af leyfissamningum ráðstafað til höfundaréttarsamtakanna sem úthluta þeim svo áfram til höfunda eða í þeirra þágu.

Markmið samninganna er að höfundar fái greitt fyrir afritun verka sinna og að þannig verði fleiri verk til sem menntastofnanir hafi aðgang að til framtíðar. 

Gerðir hafa verið mismunandi samningar við mismunandi aðila.

Ljósritun í skólum. Samningur Fjölís við menntamálaráðuneytið nær til ljósritunar í grunn-, framhalds- og háskólum. Samningurinn nær til prentaðra verka, íslenskra og erlendra og heimilt er að ljósrita 20% af umfangi hvers rits, þó aldrei meira en 30 bls. Ósamið er um skönnun og aðra rafræna afritun, vistun og dreifingu og nær samningurinn því eingöngu til þess að ljósritað er af pappír á pappír. Nánari upplýsingar um skólasamninginn má finna hér 

Skönnun í háskólum. Samningur Fjölís við háskólana nær til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskólans, Háskólans á Bifröst og Háskólans á Hólum. Samningurinn nær yfir skönnun íslenskra, útgefinna verka. Skanna má 20% af heilu riti eða 30 bls að hámarki. Þó er heimilt að skanna heilar tímaritsgreinar og heila bókarkafla, þó aldrei fleiri en tvo úr hverju riti. Skanna má útgefið efni og vista á innri vef skólanna auk þess að prenta það út. Ósamið er um skönnun erlends efnis, svo samningurinn nær eingöngu til íslensks efnis enn sem komið er. Nánari upplýsingar um skönnunarsamninginn má finna hér.

Aðrir samningar Fjölís eru við Kirkjuráð vegna ljósritunar á höfundaréttarvörðu efni í starfi þjóðkirkjunnar, kóra, einkaskóla og símenntunarmiðstöðvar, svo einhverjir séu nefndir. Þeir samningar eiga það sammerkt að ósamið er um rafræna afritun, vistun og dreifingu og ná samningarnir því eingöngu til hefðbundinnar ljósritunar, þ.e. af pappír á pappír. Umfang ljósritunarinnar er 20% af umfangi hvers verks, að hámarki 30 bls.  en samningarnir ná bæði til íslensks og erlends efnis. Nánari upplýsingar um aðra samninga má finna hér. 

Fjölís hefur útbúið heimasíðu með nánari upplýsingum um samninga félagsins, umfang þeirra og gildissvið. Sjá nánar á www.ljosritun.is 

Við svörum einnig fyrirspurnum á fjolis@fjolis.is eða í síma 511 2212.