November 2016

Í október var undirritaður nýr samningur milli Fjölís og ráðuneytis mennta- og menningarmála. Samningurinn felur í sér heimildir til að afrita höfundaréttarvarið efni, með takmörkunum, í skólastarfi á vegum hins opinbera hérlendis. Undir samninginn falla því; leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, tækniskólar, háskólar, tónlistarskólar og símenntunarmiðstöðvar.

Samningurinn felur í sér heimildir með takmörkunum. Í því felst að afrita má 20% af hverju verki, þó að hámarki 30 blaðsíður en heimilt er að afrita heila bókarkafla og heilar tímaritsgreinar. Afritunin getur verið með hvaða hætti sem er, þ.e. ljósritun, skönnun, ljósmyndun o.þ.h. og hinu afritaða verki má dreifa ýmist með ljósriti eða með rafrænum hætti. Sé um að ræða stafrænt afrit má eingöngu dreifa því í gegnum lokuð innri net skólanna sem eingöngu nemendur hafa aðgang að.

Gerð er krafa um að höfundar, heitis verks, útgefanda og ártals sé getið, ýmist á hinu afritaða skjali eða í fylgigögnum.

Samningurinn veitir heimildir til að afrita bæði íslenskt og erlent efni.

Samningurinn þykir einstakur fyrir þær sakir að hann tekur til heildstæðs menntakerfis þar sem ríkið tekur að sér ákveðið umsýsluhlutverk fyrir marga smærri aðila og nær þannig fram hagræðingu sem gagnast öllum hlutaðeigandi.

Kynningarefni um samninginn verður aðgengilegt hér á síðunni innan skamms.