Author: fjolis

0

Á dögunum undirrituðu Gígjan, landssamband kvennakóra og LBK, landssamband blandaðra kóra heildarsamning við Fjölís um afritun höfundaréttarvarins efnis.

Í því felst að öllum kórum sem heyra undir samböndin er nú heimilt að afrita nótur til notkunar við æfingar skv. ákvæðum samningsins.

Samningar standa yfir við Samband karlakóra og er búist við að þeir verði undirritaðir innan tíðar.

Með samningunum hafa nú velflestir starfandi kórar á Íslandi öðlast lögmæta heimild til afritunar á nótum og söngtextum í sínum störfum skv. ákvæðum samninganna. Samningunum er ætlað að brúa bilið varðandi heimildir til afritunar t.d. þegar efni er ófáanlegt, þegar eingöngu er ætlunin að nota lítinn hluta af tiltekinni útgáfu o.s.frv.

Höfundar og útgefendur fagna samningunum  og óska íslenskum kórum velfarnaðar í sínum störfum.

0

Aðalfundur Fjölís var haldinn 25. maí s.l.

Í skýrslu stjórnarformanns kom fram að tekjur félagsins hafa á undanförnum tveimur árum aukist um 24,5% og rekstrarkostnaður dregist saman um 35%, einkum vegna endurnýjunar á samningum, framleigu á skrifstofuhúsnæði og því að framkvæmdastjóri hefur verið í 30% starfi. Starfsemi félagsins hefur dregist verulega saman vegna endurnýjunar samninga. Framkvæmdastjóri mun skv. samkomulagi halda áfram að sinna félaginu og þeim verkefnum sem enn standa út af borðinu við endurnýjun samninga og við að gera viðeigandi breytingar og aðlaga rekstur félagsins að nýjum kröfum sem tilkomnar eru vegna tilskipana frá Evrópusambandinu. Í því felst einnig að skrifstofa félagsins verður flutt út Aðalstræti 6 og í húsnæði Félags íslenskra bókaútgefefnda við Barónsstíg 5.

Aðalfundurinn samþykkti tilnefningar aðildarfélaga í fulltrúaráð og stjórn félagsins.

Stjórn félagsins skipa:

Halldór Þ. Birgisson, f.h. FÍBÚT, formaður,

Ragnar Th. Sigurðsson, f.h. Myndstefs, varaformaður,

Jón Yngvi Jóhannsson, f.h. Hagþenkis,

Sindri Freysson, f.h. Rithöfundasambands Íslands,

Hjálmar Jónsson, f.h. Blaðamannafélagsins,

Páll Ragnar Pálsson, f.h. Stefs og

Gylfi Garðarsson f.h. Sítóns.

 

0

Ifrro, alþjóðasamtök hagsmunafélaga höfundaréttarsamtaka, hafa látið gera fyrir sig kynningarmyndband sem finna má í meðfylgjandi tengli. Hér er stiklað á stóru um mikilvægi þess að styðja við vernd höfundaréttar sem hluta af stoðkerfi menningarstarfs.

0

Nýlega luku Fjölís og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð nýs rammasamnings um endurgjald og viðmið vegna afritunar höfundaréttarvarins efnis í starfsemi sveitarfélaganna. Samningurinn hefur verið sendur öllum sveitarfélögum í landinu. Hann byggir á eldri samningum en hefur verið uppfærður með hliðsjón af tækninýjungum og breytingum á umfangi samninganna eftir að nýr samningur var undirritaður við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem tók yfir hluta af þeim skyldum sem sveitarfélögin sinntu áður.

Hinir nýju samningar ná nú eingöngu til stjórnsýslunnar og þess rekstrar sem sveitarfélögin standa í. Á það við um hvers kyns íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, menningarmál, ferðamál, félagsþjónustu, rekstur þjónustumiðstöðva, menningarstarfsemi, rekstur byggðasamlaga auk almennrar stjórnsýslu.

Fjölmörg sveitarfélög hafa þegar brugðist við með undirritun samningsins. Enn hafa þó nokkur ekki brugðist við boði Fjölís en Samband íslenskra sveitarfélaga mælir með því að sveitarfélög gangi til samninga við Fjölís. Með honum er opnað fyrir afnot í gegnum fleiri miðla og nýr samningur er skv. útreikningum talsvert hagstæðari en eldri samningur.

Í október var undirritaður nýr samningur milli Fjölís og ráðuneytis mennta- og menningarmála. Samningurinn felur í sér heimildir til að afrita höfundaréttarvarið efni, með takmörkunum, í skólastarfi á vegum hins opinbera hérlendis. Undir samninginn falla því; leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, tækniskólar, háskólar, tónlistarskólar og símenntunarmiðstöðvar.

Samningurinn felur í sér heimildir með takmörkunum. Í því felst að afrita má 20% af hverju verki, þó að hámarki 30 blaðsíður en heimilt er að afrita heila bókarkafla og heilar tímaritsgreinar. Afritunin getur verið með hvaða hætti sem er, þ.e. ljósritun, skönnun, ljósmyndun o.þ.h. og hinu afritaða verki má dreifa ýmist með ljósriti eða með rafrænum hætti. Sé um að ræða stafrænt afrit má eingöngu dreifa því í gegnum lokuð innri net skólanna sem eingöngu nemendur hafa aðgang að.

Gerð er krafa um að höfundar, heitis verks, útgefanda og ártals sé getið, ýmist á hinu afritaða skjali eða í fylgigögnum.

Samningurinn veitir heimildir til að afrita bæði íslenskt og erlent efni.

Samningurinn þykir einstakur fyrir þær sakir að hann tekur til heildstæðs menntakerfis þar sem ríkið tekur að sér ákveðið umsýsluhlutverk fyrir marga smærri aðila og nær þannig fram hagræðingu sem gagnast öllum hlutaðeigandi.

Kynningarefni um samninginn verður aðgengilegt hér á síðunni innan skamms.

0

Fjölís hefur um langt skeið verið í samningaviðræðum við ráðuneyti mennta- og menningarmála vegna endurnýjunar og endurmats á samningi um afritun höfundaréttarvarins efnis, þ.m.t. í háskólum landsins.  Talsvert er afritað með stafrænum hætti af ýmis konar ítarefni fyrir háskólanemendur og því dreift með rafrænum hætti. Árið 2008 gerði Fjölís samning f.h. íslenskra rétthafa um greiðslur til höfunda fyrir slíka afritun. 2012 hafði Fjölís svo aflað tilskilinna umboða frá erlendum rétthafasamtökum til að semja fyrir þeirra hönd um greiðslur fyrir stafræna afritun og rafræna dreifingu.

Könnun sem gerð var árið 2014 leiddi í ljós að forsendubrestur hafði orðið vegna samninganna þar sem margfalt meira er afritað en forsendur samninganna gerðu ráð fyrir, nemendum hafði þá einnig fjölgað talsvert án þess að það væri bætt auk þess sem mikið er afritað af erlendu efni án heimilda.

Því miður hafa viðræður við ráðuneytið dregist á langinn af ýmsum ástæðum. Síðla árs 2015 virtist sem samningur næðist og höfðu íslenskir háskólar stólað á að samningurinn yrði yfirtekinn og heimildir þeirra til afritunar námsefnis tryggðar. Það náðist hins vegar ekki af ástæðum sem hvorki verða raktar til háskólanna eða Fjölíss.

Nú þegar talsvert er liðið á árið 2016 hafa samningar enn ekki verið undirritaðir og óljóst hvort af því verður. Málið virðist nú stranda inni í fjármálaráðuneytinu þar sem túlka þarf lög um opinber fjármál sem tóku gildi um síðustu áramót.

Eins og áður segir hefur Fjölís gert samninga við erlend rétthafasamtök um að gæta þeirra hagsmuna hérlendis og innheimta fyrir þau gjöld fyrir höfundarétt vegna afritunar. Þau hafa fram til þessa haldið að sér höndum að beiðni Fjölíss þar sem samningaviðræður séu enn yfirstandandi. Við það verður hins vegar ekki unað mikið lengur og ber Fjölís að leiðbeina þeim um lagaleg úrræði svo þau geti gætt réttar síns hérlendis.

Fjölís hefur því sent mennta- og menningarmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra beiðni um að hraða því sem út af stendur svo unnt verði að ljúka samningum án tafar. Að öðrum kosti sé félaginu sá kostur einn búinn að grípa til aðgerða vegna ólögmætrar notkunar á höfundaréttarvörðu efni í íslensku skólakerfi.

Málþingið “Lifað af listinni” var haldið í Iðnó 18. mars s.l.

Þar var rætt um samningskvaðaleyfi, nýja Evróputilskipun, mikilvægi þess að fræða um höfundarétt, eintakagerð til einkanota og virði verka á vefnum.

Þátt tóku fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi, listamenn og starfsmenn höfundaréttarsamtaka.

Upptökur af erindum sem haldin voru má finna hér

0

Aðalfundur Fjölís var haldinn miðvikudaginn 20. apríl 2016.

Aðildarfélög gerðu engar breytingar á fulltrúum í stjórn og fulltrúaráði félagsins.

Fulltrúaráðið er því þannig skipað:

Friðbjörg Ingimarsdóttir, formaður, f.h. Hagþenkis
Jón Kalman Stefánsson, f.h. Rithöfundasambandsins
Egill Örn Jóhannsson f.h. Félags íslenskra bókaútgefenda
Knútur Bruun, f.h. Myndstefs
Guðrún Björk Bjarnadóttir, f.h. STEFs
Arndís Þorgeirsdóttir f.h. Blaðamannafélags Íslands
Björgvin Þ. Valdimarsson f.h. Sítóns.

Stjórn félagsins er þannig skipuð:

Halldór Þ. Birgisson, formaður f.h. Félags íslenskra bókaútgefenda
Ragnar Th. Sigurðsson, varaformaður, f.h. Myndstefs
Jón Yngvi Jóhannsson f.h. Hagþenkis
Hjálmar Jónsson f.h. Blaðamannafélags Íslands
Sindri Freysson f.h. Rithöfundasambands Íslands
Kjartan Ólafsson f.h. Stefs
Gylfi Garðarsson f.h. Sítóns

Ársreikningur félagsins er hér 

Skýrsla stjórnar er hér

 

Undanfarin misseri hafa reglulega borist fregnir af ágreiningi um endurbirtingu og/eða þýðingu fréttaefnis sem dreift er á öðrum miðlum en upphaflega rétthafans.

Að gefnu tilefni er minnt á að skv. 3. gr. höfundalaga fer höfundur með einkarétt til að gera eintök af verki sínu. Í því felst að öðrum en höfundi eða rétthafa er óheimilt að birta texta að hluta eða í heild eða í þýðingu eða annars konar framsetningu nema skv. sérstakri heimild rétthafans. Það hefur auðvitað ekki í för með sér að ekki megi fjalla um sama efni á fleiri en einum miðli. Óheimilt er hins vegar að afrita eða birta texta, myndir og annars konar birtingarform höfundaréttarvarins efnis, nema hafa fyrir því heimildir höfundar/rétthafa. Alla jafna fer ekki á milli mála hvort um tilvitnun er að ræða en þær eru almennt stuttar og höfundar undantekningarlaust getið.

Þá er einnig óheimilt að þýða fréttir, greinar og annars konar höfundaréttarvarið efni og birta nema með heimild höfundar. Ekki er nóg að vitna til hans í þýdda textanum.