Category: Uncategorized

Málþingið “Lifað af listinni” var haldið í Iðnó 18. mars s.l.

Þar var rætt um samningskvaðaleyfi, nýja Evróputilskipun, mikilvægi þess að fræða um höfundarétt, eintakagerð til einkanota og virði verka á vefnum.

Þátt tóku fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi, listamenn og starfsmenn höfundaréttarsamtaka.

Upptökur af erindum sem haldin voru má finna hér

Undanfarin misseri hafa reglulega borist fregnir af ágreiningi um endurbirtingu og/eða þýðingu fréttaefnis sem dreift er á öðrum miðlum en upphaflega rétthafans.

Að gefnu tilefni er minnt á að skv. 3. gr. höfundalaga fer höfundur með einkarétt til að gera eintök af verki sínu. Í því felst að öðrum en höfundi eða rétthafa er óheimilt að birta texta að hluta eða í heild eða í þýðingu eða annars konar framsetningu nema skv. sérstakri heimild rétthafans. Það hefur auðvitað ekki í för með sér að ekki megi fjalla um sama efni á fleiri en einum miðli. Óheimilt er hins vegar að afrita eða birta texta, myndir og annars konar birtingarform höfundaréttarvarins efnis, nema hafa fyrir því heimildir höfundar/rétthafa. Alla jafna fer ekki á milli mála hvort um tilvitnun er að ræða en þær eru almennt stuttar og höfundar undantekningarlaust getið.

Þá er einnig óheimilt að þýða fréttir, greinar og annars konar höfundaréttarvarið efni og birta nema með heimild höfundar. Ekki er nóg að vitna til hans í þýdda textanum.