October 2014

0

Í byrjun september stóð Fjölís fyrir sameiginlegum fundi systursamtaka félagins á Norðurlöndunum. Hingað til lands komu um 60 fulltrúar þeirra auk fulltrúa alþjóðasamtakanna IFRRO.

Fulltrúar systursamtaka Fjölís héldu þar fróðleg erindi um gang mála í heimalöndunum og rædd voru ýmis hagnýt atriði sem varða höfundarétt og samninga um afnot af höfundaréttarvörðu efni.

Skýrslur þeirra má finna hér:

Bonus Copyright Access

CopyDan

Kopinor

Kopiosto

Norðurlöndin byggja öll á mjög svipuðum ákvæðum í höfundalögum. Réttur þeirra til innheimtu endurgjalds vegna afritunar höfundaréttarvarins efnis er reistur á lagaákvæðum um kollektífan rétt til slíkrar innheimtu burtséð frá því hvort tilteknir höfundar standa innan eða utan höfundaréttarsamtaka. (e. extended collective licensing)

Á þeim grundvelli, auk gagnkvæmnisamninga á milli landa, gera innheimtusamtökin samninga um afritun slíks efnis, við notendur þess, innheimta endurgjald fyrir afnotin og úthluta höfundaréttarsamtökum á mismunandi sviðum og í mismunandi löndum, fjármununum. Með því er tryggt að höfundar efnis fá endurgjald fyrir afnotin, sem aftur gerir þeim kleift að viðhalda sköpun sinni. Greiðslur þessar byggja á einkarétti höfundar til afritunar og dreifingar á efni sínu skv. höfundalögum og ofangreindum heimildum sem Fjölís hefur til samningsgerðar um afritun slíks efnis.

Samanburður á gengi Fjölís og norrænna systursamtaka er því miður ekki hagstæður fyrir Ísland. Ekki er auðvelt að henda reiður á í hverju munurinn er fólginn. Svo virðist þó sem almenn sátt ríki um greiðslur fyrir afnot höfundaréttarvarins efnis í nágrannalöndunum og samningsaðilar taka fúslega þátt í könnunum og veita greiðlega upplýsingar um það efni sem þeir afrita. Því er hins vegar ekki alltaf að heilsa hérlendis.

Fjölís hefur t.a.m. um langt árabil óskað uppfærslu á gömlum samningi við menntmálaráðuneytið þar sem megintilgangurinn er að auka heimildir kennara og nemenda til afritunar slíks efnis og endurmeta umfang hennar. Áratugur er síðan félagið impraði á því fyrst við ráðuneytið að samningar verði að endurspegla a.m.k. tæknina sem notuð er til afritunar. Núgildandi samningur heimilar eingöngu hefðbundna ljósritun, af pappír á pappír. Engin skönnun er heimiluð, engar sendingar í tövupósti og engin vistun á innri vefjum skólanna. Enn þann dag í dag hefur samningurinn ekki verið uppfærður. Erlend systursamtök Fjölís, sem veitt hafa heimildir til innheimtu endurgjalds fyrir rafræna afritun og dreifingu hafa um langt skeið beðið eftir því að samið verði um þá afritun. Þar sem ekki hefur tekist að semja um rafræna afritun og dreifingu nema í háskólum hérlendis, er Fjölís gert ókleift að uppfylla sinn hluta samningsins.

Höfundaréttarsamtök, bæði erlendis og hérlendis íhuga því leiðir til að sækja rétt sinn.