Kórar

Samningur um ljósritun á höfundaréttarvörðu efni í starfi kóra nær yfir öll verk, íslensk og erlend sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín.  Samningar við kóra hafa verið endurnýjaðir þannig að LBK, Landssamband blandaðra kóra og Gígjan, landssamtök kvennakóra gerðu samning við Fjölís fyrir hönd aðildarkóra sinna og hafa því allir kórar innan þeirra vébanda lögmæta heimild til afritunar á nótum og söngtextum í sínu starfi. Landssamband karlakóra hefur hvatt sína aðildarkóra til að ganga til samninga við Fjölís og unnið er að samningagerð við þá karlakóra sem enn eru samningslausir og afrita með ólögmætum hætti nótur og söngtexta fyrir sína félaga. 

Samningarnir taka ekki til efnis sem aflað er með lögmætum samningum við efnisveitur og/eða höfunda sjálfa. Ljósrita má stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Óheimilt er að ljósrita fleiri en 30 bls. úr hverju einstöku riti á hverju ári. Eingöngu kórum sem hafa gildan samning við Fjölís, eftir atvikum í gegnum sín landssamtök, er heimilt að afrita nótur í starfi sínu.