Eignaréttur höfundar

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 á höfundur að bókmenntaverki eða listaverki eignarrétt að því. Eignarétturinn er þó takmarkaður þar sem hann helst í 70 ár eftir andlát höfundar. Eftir það fer hann í nokkurs konar almannaeigu (e. public domain). Höfundaréttur erfist skv. ákvæðum erfðalaga og fara erfingjar höfundar með þann rétt og geta notið ýmissa réttinda sem honum fylgja í 70 ár eftir andlát höfundar.

Hvaða efni er varið höfundarétti?

Allt samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar og skiptir þá engu á hvern hátt og í hvaða formi verkið birtist. Höfundaréttur er ekki skráður sérstaklega hérlendis en verður til um leið og verk er komið í skynjunarhæft form.

Einkaréttur höfundar til eintakagerðar, afritunar, eftirgerðar, aðlögunar og þýðingar

Höfundur hefur einkarétt til að gera eintök af verki sínu, sbr. 3. gr. höfundalaga. Þröng undantekning er á þessum einkarétti í 1. mgr. 11. gr. þar sem segir að heimilt sé að gera eintak/afrita verk en sú heimild nær eingöngu til einkanota sem ekki er í fjárhagslegum tilgangi. Heimildin nær því ekki til neins konar eintakagerðar eða afritunar höfundaréttarvarins efnis sem nota á í atvinnuskyni. Hins vegar er unnt að gera heildarleyfissamning við viðurkennd samtök höfundaréttarfélaga eins og Fjölís, í þeim tilvikum þegar afritað er höfundaréttarvarið efni til notkunar í skólum, á vinnustöðum o.þ.h.  Eintakagerð með nýrri tækni fellur einnig undir einkarétt höfundar, sem hefur skv. því einn heimild til að gera eintök af verki sínu með nýrri tækni, s.s. að gefa verk út rafrænt sem áður hefur verið gefið út í bók.

Með eintakagerð er átt við hvers konar beina eða óbeina, tímabundna eða varanlega gerð eintaks af verki, í heild eða að hluta, með hvaða aðferðum og í hvaða formi sem er. Þannig er óheimilt að taka verk annars manns og gera nokkur konar eintak, afritun, eftirgerð, aðlögun eða þýðingu af því, nema með heimild höfundar. Í höfundalögum er þó gert ráð fyrir þröngum undantekningum á þessu, s.s. ef samið er um eintakagerð eða afritun verks skv. leyfissamningum við viðurkennd samtök eins og Fjölís.

Sæmdarréttur höfundar, sem getið er í 2. mgr. 4. gr. höfundalaga er vernd fyrir því að verki höfundar sé breytt eða það birt með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.

Þýðingar og aðrar aðlaganir eru einnig háðar heimild höfundar. Óheimilt er, nema með samþykki höfundar, að þýða erlent efni og gefa út eða birta hérlendis. Sá sem þýðir eða aðlagar verk á höfundarétt að hinni breyttu mynd þess en sá réttur raskar þó ekki höfundarétti að frumverkinu. Útsetningar tónverka teljast þannig aðlögun á upprunalegu verki, sem og útfærslur fyrir aðra miðla, t.d. ef kvikmynd er byggð á bókmenntaverki. Sé upprunalegt verk hins vegar eingöngu notað sem fyrirmynd eða innblástur að nýju verki og efnistökin eru þannig að úr verður nýtt og sjálfstætt verk, öðlast hið nýja verk sjálfstæðan höfundarétt sem er óháður höfundarétti hins upprunalega verks.

Hagsmunagæsla Fjölís fyrir íslenska og erlenda rétthafa

Fjölís annast hagsmunagæslu fyrir meirihluta íslenskra höfunda og útgefenda skv. 26. gr. höfundalaga. Í því felst að Fjölís getur veitt leyfi, gegn sanngjörnu endurgjaldi, til afritunar og dreifingar höfundaréttarvarins efnis í starfsemi leyfishafa. Gegnum þátttöku í IFRRO (International Federation of Reproductions Rights Organizations) hefur Fjölís einnig gert samninga við 30 sambærileg systursamtök í 28 ríkjum vegna hagsmunagæslu fyrir erlenda rétthafa. Fjölís hefur því býsna víðtækt umboð, til samningsgerðar um afritun og dreifingu höfundaréttarvarins efnis, f. h. höfunda og annarra rétthafa bæði innlenda og erlenda.

Rétthafar utan aðildarfélaga

Rétthafar utan aðildarfélaga Fjölíss geta notið réttar til endurgjalds fyrir afnot verka sinna eins og félagsmenn, eigi þeir réttmætt tilkall til greiðslu fyrir fjölföldun verndaðra rita. Rétthafar sem standa utan höfundaréttarsamtaka og telja sig eiga slíkt tilkall geta því snúið sér til Fjölíss með slíka kröfu. Skilyrði er að sýnt sér fram á raunverulega notkun og umfang. Þá geta utanfélagsmenn í mörgum tilvikum sótt um styrki til aðildarfélaga Fjölíss vegna vinnslu verkefna sem falla að þeim skilyrðum sem sett eru um styrkveitingar. Rétthöfum hagnýttra verka, sem ekki eiga aðild að aðildarsamtökum Fjölís, er bent á að beina kröfum sínum til félagsins á netfangið fjolis@fjolis.is með upplýsingum um verkin og rétthafa þeirra auk upplýsinga um notkun og umfang þeirra, þ.m.t. hver notandi þeirra er, hvar verkið var notað, í hvaða umfangi o.s.frv.

Erlendir rétthafar

Heimild Fjölíss til samningsgerðar f.h. rétthafa er bundin í lög, sbr. 26. gr.  höfundalaga. Til að fylgja henni eftir hefur Fjölís gert gagnkvæmnisamninga við 30 samtök í 28 þjóðríkjum um meðferð þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninga. Samtök erlendra rétthafa fá því sendar árlega greiðslur frá Fjölís í samræmi við samninga þar að lútandi.

Fjölís hefur gert gagnkvæmnisamninga við systursamtök í þessum ríkjum: Argentína, Ástralía, Bandaríkin, Belgía, Brasilía, Danmörk, Finnland,Frakkland, Færeyjar, Georgía, Grikkland, Holland, Hong Kong, Írland, Kanada (enskumælandi) Kanada (frönskumælandi), Suður- Kórea, Noregur,Nýja Sjáland, Rússland, Slóvakía, Spánn, Stóra-Bretland, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Víetnam, Zimbabwe, Þýskaland (nótur) Þýskaland (annað útgefið efni en nótur) Öll þessi systursamtök Fjölíss eru aðilar að alþjóðasamtökum höfundaréttarsamtaka, Ifrro (International Federation of Reproduction Rights Organisations)

Aðild að félaginu eiga: