Allt sem þú þarft að vita um heildarleyfissamninga

Til að öðlast heimild til ljósritunar, skönnunar eða hvers konar hliðstæðrar afritunar eða eftirgerðar, umfram það sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr., er nauðsynlegt að fá samþykki rétthafa. Án slíks samþykkis er hvers kyns afritun ólögleg og er refsiverð skv. VII kafla höfundalaga. Ólögmæt afritun getur leitt til skaðabótaskyldu skv. 56. gr. sömu laga.

Heildarleyfissamningar Fjölíss veita notendum heimild til að afrita og/eða gera eintök af verkum allflestra höfunda og spara þannig verulegt umstang við öflun réttinda. Eingöngu örfáar undantekningar eru á heildarefnisskránni.

Heildarleyfissamningur er stundum kallaður samningskvöð (e. Extended Collective Licensing). Slíkir samningar eru einkum þekktir á Norðurlöndum og í raun var þeim komið á fót fyrst í Noregi.  Kerfið sem byggt er á, er kollektíft þannig að viðurkenndum innheimtusamtökum rétthafa er fengið umboð skv. lögum og samþykktum til að innheimta endurgjald vegna einhvers konar notkunar á höfundaréttarvörðu efni. Slík samtök gera svo gagnkvæmnisamninga við sambærileg samtök annarra ríkja. Umboðið nær til allra höfunda, óháð því hvort þeir hafa gengið í höfundaréttarsamtök eða ekki. Allir höfundar geta þó bannað notkun á eigin efni skv. heildarleyfissamningum. Slíkri kröfu skal beint til Fjölís á netfangið fjolis@fjolis.is.  Þá eiga utanfélagsmenn sama rétt og innanfélagsmenn til greiðslna, eigi þeir réttmæta kröfu fyrir notkun og geta sýnt fram á notkunina. Hin viðurkenndu innheimtusamtök úthluta svo tekjunum til aðildarsamtaka sinna. Um meðferð fjárins fer svo eftir samþykktum hverra aðildarsamtaka fyrir sig, enda rétthafanna að taka ákvörðun um ráðstöfun eigin tekna. Þannig hafa rétthafar innan aðildarfélaga Fjölíss mótað eigin reglur um úthlutun þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninga. Utanfélagsmenn eiga gjarnan aðgang að slíkum sjóðum á grundvelli umsókna sem uppfylla skilyrði sem sett hafa verið um stuðning við tiltekin verkefni. Samningsleyfið veitir leyfishafa lögmæta heimild til afritunar og dreifingar nánast alls höfundaréttarvarins efnis í starfsemi hans. Með því er fengið lögmætt aðgengi að afritun ýmis konar ítarefnis, viðbóta, efnis sem erfitt er að útvega, lítilla hluta af stærri verkum o.s.frv. Leyfið er þó háð takmörkunum og það er ekki hugsað til að koma í stað námsefniskaupa. Skólar á öllum skólastigum, stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga, Þjóðkirkjan og kórar eru meðal þeirra sem nýtt hafa sér hagræði heildarleyfa og greiða fyrir það sanngjarnt endurgjald. Samningskvaðaleyfi uppfylla ákvæði höfundalaga og alþjóðlegar skuldbindingar um meðferð höfundaréttar þar sem um er að ræða frjálsa samninga og hver og einn rétthafi getur hvenær sem er bannað fjölföldun verka sinna skv. leyfissamningunum. Það er á ábyrgð Fjölíss að tilkynna leyfishöfum um slíkt bann. Einkaréttur höfunda til eintakagerðar, sem getið er í 3. gr. sömu laga er því enn fyrir hendi.

Lítið hefur verið ritað um heildarleyfissamninga (e. extended collective licensing) á íslensku en hér má finna nokkrar fræðigreinar sem birtar hafa verið erlendis og á vefnum:

European Broadcasting Union: EXTENDED COLLECTIVE LICENSING – A valuable catalyst for the creative content economy in Europe. 

Thomas Riis og Jens Schovsbo: Extended Collective Licenses and the Nordic Experience – It´s a hybrid but is it a VOLVO or a Lemon?

Christian Rydning: Extended Collective Licenses – The Compatibility of the Nordic Solution with the International Conventions and EC Law

Johan Axhamn og Lucie Guibault: Cross-border extended collective licensing; a solution to online dessemination of Europe´s cultural heritage?

Það getur reynst erfitt og tímafrekt að hafa upp á einstökum höfundum og oft er það ómögulegt. Heildarleyfissamningar koma til móts við þarfir atvinnulífs, menntastarfs og annars konar starfsemi þar sem þeir veita heimild til ljósritunar, skönnunar og rafrænnar afritunar. Leyfin taka jafnt til verka höfunda sem eru félagar í aðildarfélögum Fjölíss og utanfélagsmanna. Þau taka einnig bæði til  íslenskra og erlendra höfunda skv. 26. gr. höfundalaga. Hver einstakur höfundur getur þó lagt skriflegt bann við fjölföldun verka sinna samkvæmt þessari grein laganna. Slík bönn eru hins vegar fátíð og heildarleyfissamningur veitir því heimild til að afrita fjölbreytt efni af margs konar uppruna.

Fjölís byggir innheimtu sína á ákvæðum höfundalaga og umboðum höfundaréttarsamtaka. Úthlutun á innheimtum fjármunum byggir á sambærilegu kerfi og flest skandinavísk systursamtök notast við.  Þannig annast Fjölís heildarinnheimtu fyrir fjölföldun á verkum allra rétthafa og heildarúthlutun til aðildarfélaga og erlendra samningshafa. Sú úthlutun er í samræmi við efnisflokkun á því efni sem fjölfaldað er samkvæmt hverjum samningi og/eða samninga þar um.

Rétthafar innan hverra aðildarsamtaka Fjölíss taka svo sjálfir ákvörðun um ráðstöfun þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninganna. Í sumum tilvikum er höfundum utan félaga einnig tryggður réttur til úthlutunar að því gefnu að þeir uppfylli þau skilyrði sem sett eru um slíkt.

Um frekari upplýsingar er vísað til aðildarfélaganna.

Vegna smæðar heildarmarkaðarins hérlendis fer ekki fram persónuleg úthlutun til höfunda, heldur er um að ræða sameiginlega innheimtu fyrir hönd allra höfunda og úthlutun til rétthafasamtaka þeirra. Ástæða þess er sú að kostnaður við upplýsingaöflun um afritun verka einstakra höfunda, myndi draga til sín megnið af tekjunum og lítið verða eftir fyrir rétthafana sjálfa. Eftir úthlutun Fjölíss til aðildarfélaga er fjármununum úthlutað til rétthafa eftir þeim reglum sem þeir setja sér í hverju félagi um sig. Í flestum tilvikum standa slíkir sjóðir utanfélagsmönnum opnir til jafns á við innanfélagsmenn.

Eftirtaldir höfundar hafa bannað afritun eftirtalinna verka sinna:

• Áslaug Björgvinsdóttir. Félagaréttur,  1999, Bókaútgáfa Orators.

• Íslenskur söguatlas. 1989-1993, ritstjórar: Árni Daníel Júlíusson, Jón Ólafur Ísberg og Helgi Skúli Kjartansson. Almenna bókafélagið: Iðunn.

UK Listi yfir verk sem óheimilt er að afrita

Nánari upplýsingar veita aðildarfélög Fjölíss.