Sveitarfélög

Samningur um ljósritun á höfundaréttarvörðu efni voru endurnýjaðir skv. rammasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga á árinu 2017. Samningarnir ná til allrar afritunar á höfundaréttarvörðu efni í starfi sveitarfélaga og nær yfir öll verk, íslensk og erlend sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín.

Með starfi sveitarfélaga er átt við alla stjórnsýslu og rekstur stofnana/fyrirtækja og/eða annan rekstur. Rekstur grunnskóla er þar undanskilinn þar sem sérstakur samningur er í gildi milli menntamálaráðuneytisins og Fjölís um ljósritun og hliðstæða eftirgerð í skólum.

Samningar sveitarfélaga við Fjölís heimila, auk hefðbundinnar ljósritunar, skönnun, útprentun af netinu og annars konar rafrænna afritun og/eða dreifingu.  Samningarnir taka ekki til efnis sem aflað er með lögmætum samningum við efnisveitur og/eða höfunda sjálfa.

Ljósrita má stutta þætti úr hverju riti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Samningurinn nær til alls efnis sem afritað er í þágu reksturs sveitarfélagsins.