Heildarleyfissamningur er stundum kallaður samningskvöð (e. Extended Collective Licensing). Samningarnir eru einkum þekktir á Norðurlöndum og í raun var þeim komið á fót fyrst í Noregi. Kerfið sem byggt er á, er kollektíft þannig að viðurkenndum innheimtusamtökum rétthafa er fengið umboð skv. lögum og samþykktum til að innheimta endurgjald vegna einhvers konar notkunar á höfundaréttarvörðu efni. Slík samtök gera svo gagnkvæmnisamninga við sambærileg samtök annarra ríkja. Umboðið nær til allra höfunda, óháð því hvort þeir hafa gengið í höfundaréttarsamtök eða ekki. Allir höfundar geta þó bannað notkun á eigin efni skv. heildarleyfissamningum. Þá eiga utanfélagsmenn sama rétt og innanfélagsmenn til greiðslna, eigi þeir réttmæta kröfu fyrir notkun og geta sýnt fram á notkunina. Hin viðurkenndu innheimtusamtök úthluta svo tekjunum til aðildarsamtaka sinna. Um meðferð fjárins fer svo eftir samþykktum hverra aðildarsamtaka fyrir sig, enda rétthafanna að taka ákvörðun um ráðstöfun eigin tekna. Þannig hafa rétthafar innan aðildarfélaga Fjölíss mótað eigin reglur um úthlutun þeirra tekna sem innheimtar eru á grundvelli heildarleyfissamninga. Utanfélagsmenn eiga gjarnan aðgang að slíkum sjóðum á grundvelli umsókna sem uppfylla skilyrði sem sett hafa verið um stuðning við tiltekin verkefni. Samningsleyfið veitir leyfishafa lögmæta heimild til afritunar og dreifingar nánast alls höfundaréttarvarins efnis í starfsemi hans. Með því er fengið lögmætt aðgengi að afritun ýmis konar ítarefnis, viðbóta, efnis sem erfitt er að útvega, lítilla hluta af stærri verkum o.s.frv. Leyfið er þó háð takmörkunum og það er ekki hugsað til að koma í stað námsefniskaupa. Skólar á öllum skólastigum, stjórnsýsla ríkis og sveitarfélaga, Þjóðkirkjan og kórar eru meðal þeirra sem nýtt hafa sér hagræði heildarleyfa og greiða fyrir það sanngjarnt endurgjald. Samningskvaðaleyfi uppfylla ákvæði höfundalaga og alþjóðlegar skuldbindingar um meðferð höfundaréttar þar sem um er að ræða frjálsa samninga og hver og einn rétthafi getur hvenær sem er bannað fjölföldun verka sinna skv. leyfissamningunum. Það er á ábyrgð Fjölíss að tilkynna leyfishöfum um slíkt bann. Einkaréttur höfunda til eintakagerðar, sem getið er í 3. gr. sömu laga er því enn fyrir hendi.
Lítið hefur verið ritað um heildarleyfissamninga (e. extended collective licensing) á íslensku en hér má finna nokkrar fræðigreinar sem birtar hafa verið erlendis og á vefnum:
European Broadcasting Union: EXTENDED COLLECTIVE LICENSING – A valuable catalyst for the creative content economy in Europe.
Thomas Riis og Jens Schovsbo: Extended Collective Licenses and the Nordic Experience – It´s a hybrid but is it a VOLVO or a Lemon?
Christian Rydning: Extended Collective Licenses – The Compatibility of the Nordic Solution with the International Conventions and EC Law
Johan Axhamn og Lucie Guibault: Cross-border extended collective licensing; a solution to online dessemination of Europe´s cultural heritage?