Ljósritun í skólum

Samningur milli menntamálaráðuneytisins og Fjölís um ljósritun og hliðstæða eftirgerð á höfundaréttarvörðu efni í skólastarfi gerir nemendum og kennurum í leik-, grunn-, framhalds- og háskólum auk tónlistarskóla og símenntunarmiðstöðva kleift að afrita viðbótarnámsefni og ítarefni til notkunar í skólastarfi. Samningurinn nær til allra varinna verka, íslenskra og erlendra sem undirorpin eru höfundarétti með þeim undantekningum ef  höfundur hefur sérstaklega undanskilið verk sín.

Gildistími. Samningur menntamálaráðuneytisins og Fjölís gildir til ársloka 2021.

Notendur. Nemendur, kennarar og starfsfólk menntastofnana sem njóta opinbers rekstrarstuðnings.

 

Samningurinn tekur til hefðbundinnar ljósritunar, skönnunar, ljósmyndunar og hliðstæðrar eftirgerðar útgefinna verka s.s. bóka, tímarita, dagblaða, nótnahefta, landakorta, listaverka, ljósmynda, leiksviðsverka, skráa, taflna o.s.frv.  Ljósrita má stutta þætti, 20% hið mesta og að hámarki 30 bls. úr hverju riti, fyrir hvern nemanda, á hverju skólaári. Dæmi: Ef rit telur 100 bls. er heimilt að ljósrita 20 bls. úr því en eingöngu 10 bls. ef það telur 50 bls. Óheimilt er að ljósrita  fleiri en 30 bls. úr hverju einstöku riti á hverju skólaári eða námskeiði. Samningurinn nær til alls efnis sem afritað er í þágu kennslunnar/námsins.

Með hverju afrituðu verki skal fylgja áminning um höfundarétt sbr. eftirfarandi: Lesendur eru minntir á að um verk þetta gilda reglur höfundalaga. Utan þess sem höfundalög og samningur háskólanna við Fjölís heimilar er ekki leyfilegt að fjölfalda verk frekar, varðveita eða dreifa án samþykkis rétthafa verksins. Ennfremur er óheimilt að breyta verkinu á nokkurn hátt.