Fréttir

0

Nýlega luku Fjölís og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð nýs rammasamnings um endurgjald og viðmið vegna afritunar höfundaréttarvarins efnis í starfsemi sveitarfélaganna. Samningurinn hefur verið sendur öllum sveitarfélögum í landinu. Hann byggir á eldri samningum en hefur verið uppfærður með hliðsjón af tækninýjungum og breytingum á umfangi samninganna eftir að nýr samningur var undirritaður við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem tók yfir hluta af þeim skyldum sem sveitarfélögin sinntu áður.

Hinir nýju samningar ná nú eingöngu til stjórnsýslunnar og þess rekstrar sem sveitarfélögin standa í. Á það við um hvers kyns íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, menningarmál, ferðamál, félagsþjónustu, rekstur þjónustumiðstöðva, menningarstarfsemi, rekstur byggðasamlaga auk almennrar stjórnsýslu.

Fjölmörg sveitarfélög hafa þegar brugðist við með undirritun samningsins. Enn hafa þó nokkur ekki brugðist við boði Fjölís en Samband íslenskra sveitarfélaga mælir með því að sveitarfélög gangi til samninga við Fjölís. Með honum er opnað fyrir afnot í gegnum fleiri miðla og nýr samningur er skv. útreikningum talsvert hagstæðari en eldri samningur.

Í október var undirritaður nýr samningur milli Fjölís og ráðuneytis mennta- og menningarmála. Samningurinn felur í sér heimildir til að afrita höfundaréttarvarið efni, með takmörkunum, í skólastarfi á vegum hins opinbera hérlendis. Undir samninginn falla því; leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, tækniskólar, háskólar, tónlistarskólar og símenntunarmiðstöðvar.

Samningurinn felur í sér heimildir með takmörkunum. Í því felst að afrita má 20% af hverju verki, þó að hámarki 30 blaðsíður en heimilt er að afrita heila bókarkafla og heilar tímaritsgreinar. Afritunin getur verið með hvaða hætti sem er, þ.e. ljósritun, skönnun, ljósmyndun o.þ.h. og hinu afritaða verki má dreifa ýmist með ljósriti eða með rafrænum hætti. Sé um að ræða stafrænt afrit má eingöngu dreifa því í gegnum lokuð innri net skólanna sem eingöngu nemendur hafa aðgang að.

Gerð er krafa um að höfundar, heitis verks, útgefanda og ártals sé getið, ýmist á hinu afritaða skjali eða í fylgigögnum.

Samningurinn veitir heimildir til að afrita bæði íslenskt og erlent efni.

Samningurinn þykir einstakur fyrir þær sakir að hann tekur til heildstæðs menntakerfis þar sem ríkið tekur að sér ákveðið umsýsluhlutverk fyrir marga smærri aðila og nær þannig fram hagræðingu sem gagnast öllum hlutaðeigandi.

Kynningarefni um samninginn verður aðgengilegt hér á síðunni innan skamms.