Fréttir

Í lok ársins 2015 voru öllum karlakórum boðnir viðaukar við upprunalega samninga þar sem bætt var við heimildum til stafrænnar afritunar og rafrænnar vistunar á því efni sem heimilt er að afrita skv. samningum við Fjölís, án aukins endurgjalds. Í árslok höfðu tveir karlakórar þekkst boðið og nú hafa meðlimir Karlakórsins Heimis og Karlakórsins Fóstbræðra heimildir til að skanna nótur og vista rafrænt. Enn vantar þó upp á að slíkar heimildir séu almennt til staðar og hvetja rétthafar kórstjórnendur til að uppfæra samninga þá sem þegar hafa verið sendir..

Þá standa yfir viðræður við Gígjuna, Samband íslenskra kvennakóra um endurnýjun samninga við aðildarkóra sambandsins þar sem heimildum til stafrænnar afritunar og rafrænnar verður bætt við. Þá er stefnt að því að gera könnun á umfangi afritaðs efnis í starfsemi valinna kóra. Er búist við því að nýir samningar muni liggja fyrir fyrir vorið.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breyting á höfundalögum nr. 73/1972. Raunar er um endurflutning að ræða en það kom fyrst fram vorið 2015.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núverandi lögum þannig að viðurkennd höfundaréttarsamtök geti samið um birtingu og betra aðgengi að áður útgefnu efni. Með því skapast einstakt tækifæri til aðgengis að bókmenntaarfi Íslendinga þar sem unnt verður að afrita efni og birta á vefnum. Fordæmi eru fyrir slíku í Noregi þar sem Norðmenn vinna nú hörðum höndum að því að skanna stærstan hluta efnis sem gefið hefur verið út í Noregi til ársins 2000 og birta á vef norska Landsbókasafnsins www.bokhylla.no. Vefurinn er mikið notaður og hefur reynst frábær viðbót við heildarleyfissamninga norskra systursamtaka Fjölíss, Kopinor.

Fjölís hefur sent inn umsögn sína um frumvarpið.