Fréttir

0

Ifrro, alþjóðasamtök hagsmunafélaga höfundaréttarsamtaka, hafa látið gera fyrir sig kynningarmyndband sem finna má í meðfylgjandi tengli. Hér er stiklað á stóru um mikilvægi þess að styðja við vernd höfundaréttar sem hluta af stoðkerfi menningarstarfs.

0

Nýlega luku Fjölís og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð nýs rammasamnings um endurgjald og viðmið vegna afritunar höfundaréttarvarins efnis í starfsemi sveitarfélaganna. Samningurinn hefur verið sendur öllum sveitarfélögum í landinu. Hann byggir á eldri samningum en hefur verið uppfærður með hliðsjón af tækninýjungum og breytingum á umfangi samninganna eftir að nýr samningur var undirritaður við mennta- og menningarmálaráðuneytið, sem tók yfir hluta af þeim skyldum sem sveitarfélögin sinntu áður.

Hinir nýju samningar ná nú eingöngu til stjórnsýslunnar og þess rekstrar sem sveitarfélögin standa í. Á það við um hvers kyns íþrótta- og æskulýðsstarfsemi, menningarmál, ferðamál, félagsþjónustu, rekstur þjónustumiðstöðva, menningarstarfsemi, rekstur byggðasamlaga auk almennrar stjórnsýslu.

Fjölmörg sveitarfélög hafa þegar brugðist við með undirritun samningsins. Enn hafa þó nokkur ekki brugðist við boði Fjölís en Samband íslenskra sveitarfélaga mælir með því að sveitarfélög gangi til samninga við Fjölís. Með honum er opnað fyrir afnot í gegnum fleiri miðla og nýr samningur er skv. útreikningum talsvert hagstæðari en eldri samningur.