Category: Frétt

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um breyting á höfundalögum nr. 73/1972. Raunar er um endurflutning að ræða en það kom fyrst fram vorið 2015.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núverandi lögum þannig að viðurkennd höfundaréttarsamtök geti samið um birtingu og betra aðgengi að áður útgefnu efni. Með því skapast einstakt tækifæri til aðgengis að bókmenntaarfi Íslendinga þar sem unnt verður að afrita efni og birta á vefnum. Fordæmi eru fyrir slíku í Noregi þar sem Norðmenn vinna nú hörðum höndum að því að skanna stærstan hluta efnis sem gefið hefur verið út í Noregi til ársins 2000 og birta á vef norska Landsbókasafnsins www.bokhylla.no. Vefurinn er mikið notaður og hefur reynst frábær viðbót við heildarleyfissamninga norskra systursamtaka Fjölíss, Kopinor.

Fjölís hefur sent inn umsögn sína um frumvarpið.

0

Í byrjun september stóð Fjölís fyrir sameiginlegum fundi systursamtaka félagins á Norðurlöndunum. Hingað til lands komu um 60 fulltrúar þeirra auk fulltrúa alþjóðasamtakanna IFRRO.

Fulltrúar systursamtaka Fjölís héldu þar fróðleg erindi um gang mála í heimalöndunum og rædd voru ýmis hagnýt atriði sem varða höfundarétt og samninga um afnot af höfundaréttarvörðu efni.

Skýrslur þeirra má finna hér:

Bonus Copyright Access

CopyDan

Kopinor

Kopiosto

Norðurlöndin byggja öll á mjög svipuðum ákvæðum í höfundalögum. Réttur þeirra til innheimtu endurgjalds vegna afritunar höfundaréttarvarins efnis er reistur á lagaákvæðum um kollektífan rétt til slíkrar innheimtu burtséð frá því hvort tilteknir höfundar standa innan eða utan höfundaréttarsamtaka. (e. extended collective licensing)

Á þeim grundvelli, auk gagnkvæmnisamninga á milli landa, gera innheimtusamtökin samninga um afritun slíks efnis, við notendur þess, innheimta endurgjald fyrir afnotin og úthluta höfundaréttarsamtökum á mismunandi sviðum og í mismunandi löndum, fjármununum. Með því er tryggt að höfundar efnis fá endurgjald fyrir afnotin, sem aftur gerir þeim kleift að viðhalda sköpun sinni. Greiðslur þessar byggja á einkarétti höfundar til afritunar og dreifingar á efni sínu skv. höfundalögum og ofangreindum heimildum sem Fjölís hefur til samningsgerðar um afritun slíks efnis.

Samanburður á gengi Fjölís og norrænna systursamtaka er því miður ekki hagstæður fyrir Ísland. Ekki er auðvelt að henda reiður á í hverju munurinn er fólginn. Svo virðist þó sem almenn sátt ríki um greiðslur fyrir afnot höfundaréttarvarins efnis í nágrannalöndunum og samningsaðilar taka fúslega þátt í könnunum og veita greiðlega upplýsingar um það efni sem þeir afrita. Því er hins vegar ekki alltaf að heilsa hérlendis.

Fjölís hefur t.a.m. um langt árabil óskað uppfærslu á gömlum samningi við menntmálaráðuneytið þar sem megintilgangurinn er að auka heimildir kennara og nemenda til afritunar slíks efnis og endurmeta umfang hennar. Áratugur er síðan félagið impraði á því fyrst við ráðuneytið að samningar verði að endurspegla a.m.k. tæknina sem notuð er til afritunar. Núgildandi samningur heimilar eingöngu hefðbundna ljósritun, af pappír á pappír. Engin skönnun er heimiluð, engar sendingar í tövupósti og engin vistun á innri vefjum skólanna. Enn þann dag í dag hefur samningurinn ekki verið uppfærður. Erlend systursamtök Fjölís, sem veitt hafa heimildir til innheimtu endurgjalds fyrir rafræna afritun og dreifingu hafa um langt skeið beðið eftir því að samið verði um þá afritun. Þar sem ekki hefur tekist að semja um rafræna afritun og dreifingu nema í háskólum hérlendis, er Fjölís gert ókleift að uppfylla sinn hluta samningsins.

Höfundaréttarsamtök, bæði erlendis og hérlendis íhuga því leiðir til að sækja rétt sinn.

0

Aðalfundur Fjölís var haldinn þann 6. mars 2014. Á fundinum tóku fulltrúar Sítóns, Sambands íslenskra tónbókaútgefenda, sæti í stjórn félagsins auk þess sem samþykktar voru tilnefningar aðildarfélaga um fulltrúa í fulltrúaráði. Þá var stjórn félagsins kjörin til næsta árs.

Stjórn Fjölís er þannig skipuð 2014-2015.

Halldór Þ. Birgisson, formaður, f.h. Félags íslenskra bókaútgefenda

Ragnar Th. Sigurðsson, varaformaður, f.h. Myndstefs

Jón Yngvi Jóhannsson f.h. Hagþenkis

Hjálmar Jónsson f.h. Blaðamannafélags Íslands

Kristín Steinsdóttir f.h. Rithöfundasambands Íslands

Kjartan Ólafsson f.h. Stefs

Gylfi Garðarsson f.h. Sítóns.

 

Stjórn fulltrúaráðs Fjölís skipa:

Jón Kalman Stefánsson, formaður, f.h. Rithöfundasambandsins

Egill Örn Jóhannsson f.h. Félags íslenskra bókaútgefenda

Knútur Bruun, f.h. Myndstefs

Friðbjörg Ingimarsdóttir, f.h. Hagþenkis

Arndís Þorgeirsdóttir f.h. Blaðamannafélags Íslands

Hrafnkell Pálmarsson, f.h. Stefs

Björgvin Þ. Valdimarsson f.h. Sítóns.

Nú þegar enn einn skólaveturinn hefst fjölgar fyrirspurnum til Fjölíss um það hvað kennarar og leiðbeinendur mega ljósrita og skanna undir leyfissamningum sem gerðir hafa verði við félagið.

Hvaða efni er varið höfundarétti?

Til að gera langa sögu stutta þá er rétt að rifja upp að allt samið mál í ræðu og riti auk tónsmíða, ljósmynda, taflna og grafa er varið með höfundarétti. Afritun slíks efnis í starfi menntastofnana er óheimilt nema með leyfissamningi við Fjölís.  Gildir það jafnt um hefðbundna ljósritun, skönnun prentaðra verka og útprentun af netinu og einnig rafræna vistun og dreifingu.

Hlutverk Fjölís

Fjölís er félag sem stofnað er af höfundaréttarsamtökum á Íslandi. Félagið er milliliður þeirra sem afrita höfundaréttarvarið efni og rétthafa efnisins. Félagið innheimtir sanngjarna þóknun fyrir afnot af höfundaréttarvörðu efni og er tekjum af leyfissamningum ráðstafað til höfundaréttarsamtakanna sem úthluta þeim svo áfram til höfunda eða í þeirra þágu.

Markmið samninganna er að höfundar fái greitt fyrir afritun verka sinna og að þannig verði fleiri verk til sem menntastofnanir hafi aðgang að til framtíðar. 

Gerðir hafa verið mismunandi samningar við mismunandi aðila.

Ljósritun í skólum. Samningur Fjölís við menntamálaráðuneytið nær til ljósritunar í grunn-, framhalds- og háskólum. Samningurinn nær til prentaðra verka, íslenskra og erlendra og heimilt er að ljósrita 20% af umfangi hvers rits, þó aldrei meira en 30 bls. Ósamið er um skönnun og aðra rafræna afritun, vistun og dreifingu og nær samningurinn því eingöngu til þess að ljósritað er af pappír á pappír. Nánari upplýsingar um skólasamninginn má finna hér 

Skönnun í háskólum. Samningur Fjölís við háskólana nær til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Landbúnaðarháskólans, Háskólans á Bifröst og Háskólans á Hólum. Samningurinn nær yfir skönnun íslenskra, útgefinna verka. Skanna má 20% af heilu riti eða 30 bls að hámarki. Þó er heimilt að skanna heilar tímaritsgreinar og heila bókarkafla, þó aldrei fleiri en tvo úr hverju riti. Skanna má útgefið efni og vista á innri vef skólanna auk þess að prenta það út. Ósamið er um skönnun erlends efnis, svo samningurinn nær eingöngu til íslensks efnis enn sem komið er. Nánari upplýsingar um skönnunarsamninginn má finna hér.

Aðrir samningar Fjölís eru við Kirkjuráð vegna ljósritunar á höfundaréttarvörðu efni í starfi þjóðkirkjunnar, kóra, einkaskóla og símenntunarmiðstöðvar, svo einhverjir séu nefndir. Þeir samningar eiga það sammerkt að ósamið er um rafræna afritun, vistun og dreifingu og ná samningarnir því eingöngu til hefðbundinnar ljósritunar, þ.e. af pappír á pappír. Umfang ljósritunarinnar er 20% af umfangi hvers verks, að hámarki 30 bls.  en samningarnir ná bæði til íslensks og erlends efnis. Nánari upplýsingar um aðra samninga má finna hér. 

Fjölís hefur útbúið heimasíðu með nánari upplýsingum um samninga félagsins, umfang þeirra og gildissvið. Sjá nánar á www.ljosritun.is 

Við svörum einnig fyrirspurnum á fjolis@fjolis.is eða í síma 511 2212.

0

Á aðalfundi Fjölís sem haldinn var í Reykjavík 16. maí s.l. skipuðu hagsmunasamtök þau sem aðild eiga að Fjölís fulltrúa sína í fulltrúaráð og stjórn félagsins. Halldór Birgisson var þar skipaður stjórnarformaður og tók hann við af Jóni Yngva Jóhannssyni.

Stjórn er skipuð eftirfarandi fulltrúum:

Halldór Þ. Birgisson, formaður, f.h. FÍBÚT

Knútur Bruun, varaformaður, f.h. Myndstefs

Jón Yngvi Jóhannsson f.h. Hagþenkis

Kristín Steinsdóttir f.h. RSÍ

Kjartan Ólafsson f.h. STEFS

Hjálmar Jónsson f.h. Blaðamannafélags Íslands

 

Fulltrúaráð er skipað eftirfarandi fulltrúum:

Kristján B. Jónasson f.h. FÍBÚT

Ragnar Th. Sigurðsson f.h. Myndstefs

Ragnheiður Kristjánsdóttir f.h. Hagþenkis

Hrafnkell Pálmason f.h. STEFS

Jón Kalman Stefánsson f.h. RSÍ

Arndís Þorgeirsdóttir f.h. Blaðamannafélags Íslands